Vernd Kaldárhrauns
Trausti Baldursson
Á skógrækt að vera allsstaðar?
Eftirfarandi bréf var sent til Umhverfisstofnunar 26. ágúst 2021. Ekki hef ég heyrt neitt frá stofnuninni eða öðrum aðilum sem fengu afrit af bréfinu en það voru Hafnarfjarðarkaupstaður, Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, Umhverfisráðuneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ekki heyrt annað en að erindið væri móttekið. Það er þó alltaf eitthvað. Kannski er þetta svo lítilfjörlegt mál.
En bréfið hljóðaði svona og fylgdu því ljósmyndir sem sjá má í lok bréfsins málinu til skýringar.
,,Ágæti móttakandi,
Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar eru friðlýst svæði, náttúruvætti, en erindi þetta fjallar fyrst og fremst um Kaldárhraun, sjá auglýsingu nr. 396/2009. Eins og kemur fram í auglýsingunni er hraunið eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar. Í auglýsingunni kemur fram að ,,Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.“ Um verndun jarðmyndana segir almennum orðum í friðlýsingarskilmálum, 6. gr., að ,,Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu…..“ (feitletrun undirritaður).
Að mati undirritaðs er nú svo komið að plöntun á trjám, sérstaklega furu, er og mun innan skamms hylja ásýnd Kaldárhrauns / jarðmyndunarinnar að stórum hluta á ákveðnu svæði innan fárra ára og spilla því þar með. Einnig má gera ráð fyrir að fura og aðrar framandi plöntutegundir muni á komandi árum sá sér enn frekar inn á svæðið og er það t.d. að gerast nú þegar út frá skógræktinni við Undirhlíðar. Meðfylgjandi þessu erindi eru 15 ljósmyndir sem lýsa því sem er að gerast á svæðinu. Undirritaður sér enga ástæðu til að skýra málið frekar út enda ætti öllum að vera ljóst hvaða breytingar eru að eiga sér stað ef farið er á svæðið eða framangreindar ljósmyndir skoðaðar. Að öðru leiti er vísað í lög um náttúruvernd nr. 60/20213, almenn ákvæði um vernd íslenskrar náttúru, þar undir sérstaklega 3. gr. laganna, og almenn ákvæði um vernd friðlýstra svæða/náttúruverndarsvæða.
Undirritaður telur að Umhverfisstofnun eigi, í samvinnu við Hafnarfjarðarkaupstað, sem umsjónaraðila svæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar (sem líklega hefur umsjón með plöntun á trjám á svæðinu þó undirritaður hafi ekki kynnt sér það sérstaklega), að beita sér fyrir því að allur framandi gróður, furur og t.d. ösp, verði fjarlægður ,,tafarlaust“ bæði frá jöðrum Kaldárhrauns og innan þess.
Í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru þar sem fjallað var um ágengar tegundir kom fram hjá skógræktarstjóra að hann teldi stafafuru ekki vera ágenga tegund. Um það má deila. Tók hann m.a. fram að það væri vegna þess að útbreiðsla hennar væri hæg og mjög auðvelt að fjarlægja hana ef með þyrfti. Oftast er talað um ágengar tegundir í vistfræðilegum skilningi. Hér er hins vegar um að ræða annars konar ágengni sem snýr að vernd jarðmyndunar og landslags en þó einnig um vernd þess lífríkis sem er að finna í Kaldárhrauni og framvindu þess. Í ljósi orða skógræktarstjóra, þó hann sé ekki yfirmaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, þá ætti skógræktarfélagið að taka jákvætt í erindi þessa bréfs enda margoft komið fram hjá skógræktarfélögum að þau telji sig vera að stuðla að náttúruvernd almennt.
Að mati undirritaðs á ekki að vera nein þörf á því að snúa þessu máli upp í flóknar umræður um ábyrgð hvers og eins, hvenær trjánum var plantað og allra síst skaðabætur vegna plantna sem verða fjarlægðar. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur fengið land í eigu Hafnarfjarðar til notkunar og notið ýmissa styrkja af hálfu bæjarins til fjölda ára en auðvitað margt komið þar á móti. Þó afstaða undirritaðs og margra annara til náttúruverndar sé ekki alltaf sú sama og skógræktarfélagsins verður að hrósa því fyrir ýmislegt sem vel hefur verið gert t.d. í tengslum við útivist. Mál þetta á því að snúast um samtarfsvilja og lausnir en ekki um hvort fjarlægja eigi umræddar ágengar plöntur eða ekki því augljóst er hvað er að gerast og að það er í andstöðu bæði við náttúruverndarlög og markmið friðlýsingar Kaldárhrauns. Fullur skilningur er fyrir því að einhverjum getur þótt málið viðkvæmt en hér er um að ræða að vernda friðlýst svæði. „
Svo mörg voru þau orð.
Hér á eftir má sjá nokkrar myndanna sem fylgdu erindinu:
Your Title Goes Here
Your content goes here. Edit or remove this text inline or in the module Content settings. You can also style every aspect of this content in the module Design settings and even apply custom CSS to this text in the module Advanced settings.
Your Title Goes Here
Your content goes here. Edit or remove this text inline or in the module Content settings. You can also style every aspect of this content in the module Design settings and even apply custom CSS to this text in the module Advanced settings.
